Sunday, July 16, 2006

Til útskýringar

Stundum þegar lífið virðist ein samfelld rússibanareið þá er erfitt að koma flóknum hugsunum í einfaldar bloggfærslur. Þess vegna er stundum ágætt að taka pásu frá skrifunum og einbeita sér þess í stað að atburðum raunveruleikans. Hið skrifaða orð á nefnilega oft til að misskiljast og sérstaklega oftúlkast. Tímabundin lokun skrifanna hér tengjast framtíðarákvörðunum, yfirvofandi Íslandsheimsókn og ekki síst dásamlegu sumarveðri sem gerir það að verkum að tölvuskjárinn freistar ekki. Það er ekkert "að" og við Spörri erum enn fáránlega skotin hvort í öðru svo það er óþarfi að spá hörmungum og ógn þótt lítið verði um blogg á næstunni.

Friday, July 14, 2006

Lokað af óviðráðanlegum orsökum

Nenni ekki að fara út í sentimental útskýringar en mig langar ekki að blogga í augnablikinu og ætla því ekki að gera það. Þetta er samt ekkert kveðjustund, heldur eins konar sjáumst síðar.

Tuesday, July 04, 2006

Allt of heitt

Það er hitabylgja í landinu og hitnar enn með hverjum deginum sem líður. Þetta er óbærilegt, ég sit á bikiníbuxum við tölvuna og svitna eins og í gufubaði. Ógeðslegt ástand og einu lífvænlegu stundirnar eru á ströndinni þar sem ég ligg ofan í sjónum og hugsa um svala íslenska sumarið. Ýmsum kann að þykja þetta vanþakklæti en mér líður illa í svona hita og þrái 13-20 stigin þar sem maður getur verið dömulega klæddur í sokkabuxum og frakka með maskara og gloss. Hér klæðist ég bara bómullarkjólgopum opinberlega og mest litlu heimafyrir og er samt of heitt. Hárið er eitt stórt rakaflækju afró, æðarnar á höndum og fótum eru óhugnanlega áberandi og það er vonlaust að ætla að flikka upp á andlitið með snyrtivörum. Ojbara. Það á að rigna á föstudaginn en hitinn stendur í stað. Eftir mínum skilningi hlýtur þá að rigna gufu en ekki regndropum. Til að auka á óþægindin virka ofnæmislyfin mín ekki sem skyldi svo ég er gangandi hnerramaskína með tilheyrandi snýtingum og bólgnum augum. Lekker? Nei, heldur betur ekki.

Wednesday, June 28, 2006

Master of the Universe!


Spörri dúxaði á mastersvörninni í gær og fékk 11 - ELLEFU!!!

Sunday, June 25, 2006

Fastir liðir

Sumarið er stærsti óvinur bloggsins. Það er of heitt til að sitja við tölvuna og hversdagurinn snýst frekar um strandferðir en skrif. Þannig er það bara. Ég er bara í of góðu sumarskapi þessa dagana til að nenna að velta mér upp úr eymd og volæði og það er jú efnið sem yfirleitt skapar besta bloggið. Trú þessu ætla ég nú í gula bikiníið mitt, setja teppi ofan í tösku og hjóla með Spörra út á strönd. Kannski við grípum með okkur transatlantic einnota grillið sem Louí sendi með pósti frá Íslandi til Danmerkur og grillum okkur svínapylsur með epla- og timjanfyllingu.

Saturday, June 17, 2006

Hæ, hó, jibbí, jei!


Gleðilegan þjóðhátíðardag kæru landar.
Við útlagarnir ætlum að kyngja stoltinu og líta við á fögnuði Íslendingafélagsins á Amagerströndinni. Mér finnst reyndar svolítið langsótt að tala um fögnuð þar sem "skemmtiatriðin" samanstanda af ávarpi sendiherrans og hátíðarmessu. Það er þungskýjað og svalara en síðustu vikur en Spörra langar í hangikjötssamloku ... hvað gerir maður ekki til að gleðja makann?

Wednesday, June 14, 2006

Að skrifa sig frá sorginni

Snemma í síðustu viku fékk ég símtal sem enginn vill nokkru sinni fá um að náinn ættingi minn hefði látist í bílslysi. Halli frændi minn var bara 34 ára og áfallið að heyra að hann væri dáinn var mikið. Þegar maður heyrir af dauðaslysi í umferðinni verður manni alltaf hugsað til ættingja hins látna og í þetta skiptið var það ég og fjölskyldan mín. Hanna frænka, mamma hans Halla, hringdi í mig í gær og við áttum gott samtal. Hún sýnir ótrúlegan styrk á þessum erfiðustu dögum lífs síns og tekst á við sorgina með jafnaðargeði. Akkúrat núna stendur kistulagningin yfir og á föstudag er útförin. Ég settist við tölvuna í morgun og skrifaði minningarorð um stóra frænda minn og líður betur fyrir vikið. Það er gott að safna hugsunum sínum og minningum saman og setja niður á blað.